Öflugur jarðskjálfti á Reykjanesi

Horft yfir að Keili frá höfuðborgarsvæðinu. Skjálftinn átti upptök sín …
Horft yfir að Keili frá höfuðborgarsvæðinu. Skjálftinn átti upptök sín 2,4 km suðaustur af fjallinu. mbl.is/Hari

Snarpur jarðskjálfti varð klukkan 16.15 síðdegis í dag. Fannst hann vel á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt síðustu mælingum Veðurstofunnar var skjálftinn 4,2 að stærð. Átti hann upptök sín 3,2 kíló­metra aust­ur af Fagradalsfjalli á Reykja­nesi. 

7,2 kílómetra dýpi

Fyrr í dag, eða um klukkan kortér í tvö, varð jarðskjálfti af stærðinni 3,7 á Reykjanesi.

Sá átti upptök 2,9 kíló­metra aust­ur af Fagra­dals­fjalli. Skjálft­inn varð á 7,2 kíló­metra dýpi og fannst hann víða á Suður­nesj­um, höfuðborg­ar­svæðinu og norður á Akra­nes.

Fjöldi skjálfta hefur verið á Reykjanesi undanfarna mánuði. Skjálfti, sem mældist 5,2 stig, varð þar 12. mars.

Borist yfir hundrað tilkynningar

Veðurstofunni hafa borist yfir hundrað tilkynningar um það að skjálftanna hafi orðið vart víða á Suðvesturlandi. Mikil jarðskjálftavirkni hefur verið við Fagradalsfjall undanfarinn mánuð, en öflug jarðskjálftahrina hófst þar 19. júlí.

Ríflega 5.000 skjálftar hafa mælst á svæðinu síðan þá.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni er þessi virkni sögð líklega af völdum spennubreytinga vegna endurtekinna kvikuinnskota á Reykjanesskaga sem hófst í lok janúar á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert