Samkeppniseftirlitið ógildir samruna

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að samruni myndgreiningarfyrirtækjanna myndi hafa …
Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að samruni myndgreiningarfyrirtækjanna myndi hafa skaðleg áhrif á notendur þjónustunnar. AFP

Samkeppniseftirlitið hefur ógilt samruna Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. og Íslenskrar myndgreiningar ehf., að því er fram kemur á vef stofnunarinnar.

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að „með samrunanum hefði keppinautum á markaði fyrir myndgreiningu utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu fækkað úr þremur í tvo, með alvarlegum skaðlegum áhrifum fyrir bæði greiðendur og notendur þjónustunnar“.

Nýstofnaða félagið, Myndgreiningar ehf., hafði áformað að festa kaup á Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og Íslenskri myndgreiningu ehf.  Félögin sinna læknisfræðilegri myndgreiningarþjónustu, þ.á m. tölvusneiðrannsóknum, röntgenrannsóknum, ómun, segulómun og skyggnirannsóknum. 

Tilkynning Samkeppniseftirlitsins

Samkeppni á heilbrigðissviði styður við velferð

„Samkeppniseftirlitið hefur í dag ógilt samruna sem áformaður var með kaupum nýstofnaðs félags Myndgreiningar ehf. á Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og Íslenskri myndgreiningu ehf. Starfsemi samrunaaðila felst í að veita læknisfræðilega myndgreiningarþjónustu, en undir hana falla m.a. tölvusneiðmyndarannsóknir, röntgenrannsóknir, ómun, segulómun og skyggnirannsóknir. Læknisfræðileg myndgreining býður upp á fjölbreyttar rannsóknir í myndgreiningarþjónustu auk þess að bjóða upp á sérhæfðar kransæðarannsóknir og rekur starfsstöðvar að Egilsgötu 3 í Reykjavík, Þönglabakka 1 í Reykjavík (Læknasetrið Mjódd) og Bíldshöfða 9 í Reykjavík. Íslensk myndgreining sinnir hvers kyns almennum myndgreiningarrannsóknum en meginþungi starfsemi félagsins snýr að stoðkerfisrannsóknum. Íslensk myndgreining rekur starfsstöð sína að Urðarhvarfi 8 Kópavogi.

Í hjálagðri ákvörðun nr. 35/2020 er fjallað um samrunann og komist að þeirri niðurstöðu að með honum hefði keppinautum á markaði fyrir myndgreiningu utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu fækkað úr þremur í tvo með alvarlegum skaðlegum áhrifum fyrir bæði greiðendur og notendur þjónustunnar. Í kjölfar samrunans hefði samanlögð hlutdeild samrunaaðila á markaðnum orðið mjög há eða á bilinu [80-100]%, eftir því um hvaða tegund myndgreiningarþjónustu er að ræða. Þá var það jafnframt mat Samkeppniseftirlitsins að önnur atriði, s.s. kaupendastyrkur Sjúkratrygginga Íslands eða möguleg hagræðing vegna samrunans, kæmu ekki í veg fyrir skaðleg áhrif samrunans. Endurspeglast það jafnframt í því að Sjúkratryggingar hafa í sjónarmiðum sínum við rannsókn samrunans lagst eindregið gegn honum.

Samkeppniseftirlitið og samkeppnisyfirvöld á Norðurlöndunum hafa bent á mikilvægi þess að nýta virka samkeppni og hvata tengda henni til að auka bæði hagkvæmni og gæði í heilbrigðisþjónustu. Er þetta ekki hvað síst mikilvægt vegna þeirra miklu lýðfræðilegu breytinga sem felast í hækkun meðalaldurs og þar með aukinni þörf á heilbrigðisþjónustu. Á Íslandi og Norðurlöndunum hefur þetta m.a. verið gert með notkun svokallaðra valkerfa (s. valfrihetssystem) sem fela í sér að veitendur heilbrigðisþjónustu keppa sín á milli um notendur en niðurgreiðsla sjúkratrygginga fylgir áfram einstaka skjólstæðingum.

Að mati Samkeppnieftirlitsins er mjög mikilvægt að með beitingu samkeppnislaga sé samkeppni á þessu sviði vernduð. Hefði samruni sá sem til skoðunar var í þessu máli gengið eftir, liggur fyrir að samkeppni í myndgreiningarþjónustu hefði orðið fyrir miklum skaða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert