„Stórt og viðkvæmt mál“

Logi Einarsson segir ríkisábyrgð á lánalínum Icelandair vera stórt og …
Logi Einarsson segir ríkisábyrgð á lánalínum Icelandair vera stórt og viðkvæmt mál. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna og nefndarmenn í fjárlaganefnd fara á fund fjármálaráðherra í Hörpu nú síðdegis. Farið verður yfir frumvarp til fjáraukalaga þar sem heimild er lögð til handa ráðherra að veita Icelandair Group hf. sjálfskuldaraábyrgð frá ríkissjóði á lánum vegna tekjufalls fyrirtækisins í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. 

Heildarskuldbinding ríkissjóðs vegna þessa getur numið allt að 108 milljónum Bandaríkjadala eða sem jafngildir 90% af 120 milljóna Bandaríkjadala lánalínum til félagsins. 

Alþingi kemur saman á morgun, í stubbnum svonefnda. Frumvarp til fjáraukalaga verður meðal þess sem rætt verður. 

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir stjórnarandstöðuna hafa óskað eftir fundinum til að geta kynnt sér málið að fullu. 

„Við náttúrulega fórum fram á að fá þennan fund til þess að geta kynnt okkur málið áður en við ræðum það inn á þingi því þetta er auðvitað stórt og viðkvæmt mál. Þetta er verðmætt fyrirtæki fyrir þjóðarhag og fyrirtæki á samkeppnismarkaði svo það þarf að kalla eftir eins góðum upplýsingum og mögulegt er svo umræðan geti verið málefnaleg og góð á þinginu,“ segir Logi. 

„Styrkjum en fáum ekkert í staðinn“

Hefðir þú kosið að fara aðra leið með þessi málefni Icelandair?

„Það er ofboðslega erfitt að svara því þegar maður hefur ekki bestu fáanlegu gögn um málið. Ég geri ráð fyrir því að ríkisstjórnin, sem hefur haft sérfræðinga, hafi skoðað fleiri leiðir og bjóði nú upp á þennan möguleika. Þá held ég að við ættum að einbeita okkur að því að skoða kosti og galla þeirrar leiðar,“ segir Logi. 

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, segist vilja vita hvers vegna Íslendingar fari ekki sömu leið og nágrannaþjóðirnar þegar kemur að því að veita flugfélögum ríkisstyrk. 

„Ég hef spurt að því áður og mun spyrja áfram hvers vegna við séum að fara aðra leið en flest allar þjóðir í kringum okkur þegar kemur að því að ríkisstyrkja flugfélög. Löndin í kringum okkur hafa verið að eignast hlut í flugfélaginu og verið að fá eitthvað í staðinn en við virðumst bara vera að styrkja og fá ekkert í staðinn. Líka  hvers vegna það hefur ekki verið haft neitt samráð við stjórnarandstöðuna þegar kemur að ákvarðanatöku um hvernig eigi að fara að þessu,“ segir Halldóra. 

Uppfært kl. 15.37:

Upphaflega kom fram að fundurinn væri haldinn með ríkisstjórninni en hið rétta er að fjármálaráðherra fundar með fjárlaganefnd og formönnum stjórnarandstöðuflokkanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka