Tóku út 12 milljarða í séreignarsparnað

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 4,9% milli ára í júlí.
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 4,9% milli ára í júlí. mbl.is

Alls voru teknir út ríflega 12 milljarðar króna af séreignarsparnaði heimilanna í tengslum við sérstaka útgreiðslu vegnu COVID-19 á öðrum ársfjórðungi. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Lánakjör heimila hafa batnað töluvert í kjölfar vaxtalækkana Seðlabankans. Í kjölfarið hafa heimilin í auknum mæli endurfjármagnað íbúðalán sín og samhliða hefur ásókn í óverðtryggð húsnæðislán hjá viðskiptabönkunum aukist.

Bankavextir lægri en lífeyrissjóðanna

Markaðshlutdeild bankanna á íbúðalánamarkaði hefur því aukist hratt undanfarna mánuði en ólíkt því sem áður var bjóða þeir nú í flestum tilvikum lægri vexti en lífeyrissjóðir. Lækkun vaxta á nýjum húsnæðislánum hefur verið heldur minni en lækkun meginvaxta Seðlabankans en miðað við meðalvexti innlána heimila hefur vaxtaálag á ný húsnæðislán lítið breyst undanfarin ár. Vaxtaálag á ný fyrirtækjalán tók hins vegar að hækka í fyrra, hvort sem miðað er við meginvexti Seðlabankans eða meðalvexti innlána fyrirtækja, en virðist mögulega hafa náð hámarki. Þetta kemur fram í Peningamálum.

Tvöfalt hærra hlutfall útlána í vanskilum

Hlutfall útlána fyrirtækja í vanskilum var nær tvöfalt hærra í júlí en á sama tíma í fyrra. Til viðbótar hefur fjöldi fyrirtækja nýtt sér sérstök skuldaúrræði lánveitenda vegna faraldursins en þau lán teljast ekki til vanskila.

„Gjaldþrotum fyrirtækja hefur einnig fjölgað en fyrirtækjum á vanskilaskrá hefur hins vegar fækkað. Það sama á við um fjölda heimila á vanskilaskrá. Til viðbótar við skuldaúrræði lánveitenda hafa heimilin einnig nýtt sér sérstaka útgreiðslu séreignarsparnaðar í tengslum við COVID-19-farsóttina og nam útgreiðslan ríflega 12 ma.kr. á tímabilinu apríl til júlí,“ segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands. 

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 4,9% milli ára í júlí og leiguverð um 2,2%. Húsnæðisverð hefur hækkað nokkuð það sem af er ári enda hafa vextir lækkað mikið og kaupmáttur launa aukist þrátt fyrir versnandi atvinnuástand.

Í kjölfar útbreiðslu farsóttarinnar og tilkomu sóttvarnaraðgerða dró töluvert úr veltu á íbúðamarkaði og var samdrátturinn mestur í apríl en þá fækkaði kaupsamningum um tæplega helming milli ára. Samningum tók hins vegar að fjölga á ný í maí og í júlí voru þeir fimmtungi fleiri en á sama tíma í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka