„Þetta er búin að vera ólýsanleg martröð en henni er sem betur fer lokið,“ segir Ingibjörg Halldórsdóttir, íbúi við Skaftahlíð í Reykjavík.
Ingibjörg hefur kvartað yfir ónæði frá battavelli sem settur var upp árið 2018 við Ísaksskóla. Kvartanir hennar hafa ekki síst lotið að knattspyrnuleikjum eldri iðkenda á vellinum á kvöldin. Völlurinn var tekinn niður í síðustu viku en leyfi var ekki veitt fyrir uppsetningu hans á sínum tíma. Ákvörðun um að völlurinn skyldi víkja var tekin í borgarráði Reykjavíkur fyrr í sumar að tillögu skipulagsfulltrúa.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Ingibjörg að friður og ró sé nú í hverfinu á kvöldin. „Þetta er eins og að koma út í sveit, borið saman við það sem áður var,“ segir hún. Ingibjörg kveðst þó afar ósátt við hversu langan tíma hafi tekið að fá Reykjavíkurborg til að fjarlægja völlinn.