„Við erum ekki með neina félaga núna“

Stéttarfélagið Kópur sendi frá sér tilkynningu í dag vegna athugasemda …
Stéttarfélagið Kópur sendi frá sér tilkynningu í dag vegna athugasemda ASÍ um félagið. mbl.is/Eggert

„Það skiptir ekki máli hvort við séum búin að hafa samband við ASÍ eða ekki. Við erum ekki með neina félaga núna,“ segir Stanley Kowal, formaður stéttarfélagsins Kóps í samtali við mbl.is.

Í gær greindi mbl.is frá því að Drífa Snædal, forseti ASÍ, hafi sagt að stéttarfélagið Kópur sé ekki hluti af Alþýðusambandi Íslands, þrátt fyrir að það komi fram í lögum stéttarfélagsins, og að félagið sé ekki aðili að neinum kjarasamningum, VIRK, Bjargi, orlofssjóðum, fræðslusjóðum eða sjúkrasjóðum.

Stéttarfélagið Kópur sendi frá sér tilkynningu í dag vegna athugasemda ASÍ um félagið. Þar kemur fram að Kópur hafi leitað til ASÍ varðandi aðildarumsókn að Starfsgreinasambandi Íslands (SGS) og Sjómannasambandi Íslands (SSÍ), og að félagið hafi þegar sent félögunum aðildarumsókn.

ASÍ staðfestir við mbl.is að umsóknir frá félaginu og viðeigandi gögn hafi aðeins borist í dag, miðvikudag, og að engin samskipti hafi verið á milli Kóps og ASÍ áður.

Aðildarumsókn yrði torsótt

Í tilkynningunni frá Kópi segir að stéttarfélagið hafi verið stofnað í desember 2019 af Íslendingum af erlendum uppruna. Ástæða stofnunarinnar væri sú að starfsmenn af erlendum uppruna hafi oft á tíðum „verið hlunnfarnir af atvinnurekanda.“ Þeir hafi leitað til stéttarfélaga sinna en hafi í sumum tilvikum ekki fengið þá þjónustu sem þeir hafa talið sig eiga að hljóta.

Þá kemur fram að „félagið [hafi verið] tilkynnt til ríkisskattstjóra og var skráð þar með kennitölu í lok mars 2020“, og að „tilgangur félagsmanna [hafi verið] frá upphafi að vera aðilar í Starfgreinasambandi Íslands og Sjómannasambandi Íslands og þar með ASÍ“.

Vegna kórónuveirufaraldursins hafi gengið erfiðlega að hefja starfsemi félagsins en í kjölfar skráningar hjá ríkisskattstjóra hafi verið haft samband við ASÍ og leitað ráða vegna aðildarumsókna til SGS og SSÍ.

„Af samskiptum við ASÍ mátti ráða að aðildarumsókn félagsins yrði torsótt,“ segir í tilkynningunni, en frekari upplýsingar um samskipti félaganna eru ekki gefnar.

Félagið hafi nú sent frá sér umsóknir um aðild SGS og SSÍ og sent samböndunum lög sín og reglugerðir varðandi sjóði félagsins.

Í samtali við mbl.is segir Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, að sambandinu hafi borist umsókn frá Stéttarfélaginu Kópi rétt um klukkan tvö í dag, miðvikudag.

Magnús Norðdahl, deildarstjóri lögfræðideildar ASÍ, segir í samtali við mbl.is að sendill frá Stéttarfélaginu Kópi hafi afhent lögfræðingi ASÍ umsóknir um aðild að SGS og SSÍ í dag, en að engin samskipti hafi verið á milli ASÍ og Kóps fyrir það.

Ónefndur lögfræðingur skrifaði lögin

mbl.is ræddi við Stanley Kowal, formann Kóps. Stanley varðist svara þegar blaðamaður spurði út í samskipti Kóps og ASÍ, eða um meintar staðhæfingar stéttarfélagsins um aðild að ASÍ, SGS og SSÍ.

Hann segir að lögfræðingur sem Kópur réði hafi skrifað lög félagsins og að lögfræðingurinn, sem Stanley vildi ekki veita frekari upplýsingar um, hafi haft samband við ASÍ fyrir hönd Kóps. Lögfræðingurinn hafi þá tjáð Stanley að hann hefði haft samband við ASÍ.

ASÍ gat ekki staðfest að þessi samskipti hafi átt sér stað.

„Það skiptir ekki máli hvort við séum búin að hafa samband við ASÍ eða ekki. Við erum ekki með neina félaga núna,“ segir Stanley, eins og getið var í upphafi. Stéttarfélagið sé afar lítið. 

„Forsvarsmaður“ stéttarfélagsins geti svarað öllum frekari spurningum. Spurður hver það sé svarar Stanley að enn eigi eftir að skipa slíkan forsvarsmann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert