Landssamtök sauðfjárbænda (LS) áætla að fækkað hafi um liðlega 16 þúsund fjár á síðasta ári. Það leiðir til þess, að óbreyttri frjósemi og meðalþunga lamba, að slátrað verður um 19 þúsund lömbum færra í sláturtíðinni sem nú er að hefjast.
Er ljóst að framleiðslan minnkar enn eitt árið, nú um 300 tonn. Sumir spá frekari fækkun fjár í haust. Komi lömb óvenjulega væn af fjalli getur það dregið úr samdrætti. Sömuleiðis ef ásetningur minnkar í haust.
Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri LS, reiknar með 300 tonna samdrætti í dilkakjöti og framleiðslan fari niður í um 8.000 tonn. Svo lítil hefur framleiðslan ekki verið í hálfa öld, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Þótt sláturtíð sé að hefjast hafa sláturleyfishafar ekki gefið út verðskrár og bændur vita því ekki hvað þeir fá fyrir innleggið.