5,1% atvinnuleysi í júlí

Hlutfall atvinnulausra hefur aukist um 2,3 prósentustig þegar júlí síðastliðinn …
Hlutfall atvinnulausra hefur aukist um 2,3 prósentustig þegar júlí síðastliðinn er borinn saman við júlí í fyrra. mbl.is/Golli

Áætlað er að 213.700 einstaklingar á aldrinum 16-74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í júlí 2020 samkvæmt mælingu vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands en það jafngildir 82,2% atvinnuþátttöku.

Af vinnuaflinu er áætlað að 202.600 hafi verið starfandi en 10.900 án atvinnu og í atvinnuleit. Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 78,0% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 5,1%, að því er segir í tilkynningu frá Hagstofunni.

Samanburður við júlí 2019 sýnir að hlutfall atvinnulausra hefur aukist um 2,3 prósentustig og hlutfall starfandi hefur dregist saman um 2,8 prósentustig á milli ára. Hlutfall starfandi á aldrinum 16-24 ára í júlí 2020 var 84,6% og hlutfall atvinnulausra var 4,9%. Hlutfall starfandi í hópi 16-24 ára hefur dregist saman um 3,4 prósentustig frá júlí 2019 og hlutfall atvinnulausra um 0,6 prósentustig.

Samkvæmt árstíðarleiðréttum tölum var fjöldi atvinnulausra í júlí 12.600 eða um 6,4% af vinnuaflinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert