„Mér finnst alveg stórundarlegt og ámælisvert að Sundabraut hafi ekki verið byggð miðað við þá umferð sem er í bænum.“
Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á opnum fjarfundi efnahags- og viðskiptanefndar um skýrslu peningastefnunefndrar Seðlabanka Íslands til Alþingis í dag.
Á fundinum spurði Smári McCarthy þingmaður Pírata um fjárfestingar í samgöngumálum í ljósi samdráttar vegna kórónuveirufaraldursins.
Ásgeir segir að vandinn við margar innviðafjárfestingar, líkt og Sundabraut, sé tæknilegur en ekki peningalegur og felist að miklu leyti í þeim tíma sem taki að undirbúa slíkar framkvæmdir.
„Við getum hæglega fjármagnað þetta,“ segir seðlabankastjóri um Sundabraut.