Bente Angell-Hansen, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), segir mikilvægt fyrir efnahag Íslands og ferðafrelsi borgaranna að flugsamgöngur geti haldið áfram til og frá Íslandi. ESA hefur samþykkt ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair.
Ísland mun veita Icelandair ríkisaðstoð til að bæta hluta af því tjóni sem ferðatakmarkanir sökum COVID-19-faraldursins hafa valdið.
Icelandair er alþjóðlegt farþegaflugfélag með starfsemi sína á Íslandi. Það kemur að nærri 75% af innanlandsflugi á Íslandi og 68% farþega sem fluttir voru til og frá landinu voru með vélum félagsins árið 2019. Síðan kórónaveirufaraldurinn hófst hefur geta Icelandair til að veita þjónustu skerst verulega og leitt til mikils rekstrartaps.
„Það er mikilvægt fyrir efnahag Íslands og ferðafrelsi borgaranna að flugsamgöngur geti haldið áfram til og frá Íslandi. Við vinnum náið með íslenskum stjórnvöldum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að finna góðar leiðir til að heimila stuðning við fyrirtæki á þessum erfiðu tímum,“ sagði Bente Angell-Hansen, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).
Ísland hefur ákveðið að aðstoða Icelandair með 90% ríkisábyrgð á lánalínu að fjárhæð allt að 120 milljónir Bandaríkjadala (um 16,5 ma.kr. á núverandi gengi). Ábyrgðin mun að öllum líkindum leiða til lægri fjármagnskostnaðar fyrir Icelandair. Árið 2021 mun Ísland gera úttekt á því hvert raunverulegt tjón Icelandair reyndist sökum COVID-19. Reynist veittur stuðningur hærri en sem nemur tjóninu verður mismuninum skilað til baka til ríkisins.
Nýtt frumvarp til fjáraukalaga var birt í vikunni. Samkvæmt því mun Icelandair greiða 37,5 milljóna króna grunngjald til ríkisins á ári, fyrir að halda lánalínu opinni þeirra á milli. Ofan á þá greiðslu bætist notkunarálag, sem samkvæmt frumvarpinu tekur mið af því hversu hátt lánalínurnar eru ádregnar.