Áfram rólegheitaveður næstu daga. Lengst af hæg vestlæg átt. Eins og oftast fylgir hafáttum raki og því má búast við að það verði skýjað en úrkomulítið á vesturhelmingi landsins en léttara austan til. Þokkalega milt veður engu að síður.
Á sunnudag lítur út fyrir að lægð nálgist landið með auknum vindi og rigningu en nú styttist í að lægðirnar fái á sig haustlegri blæ en þeim fylgir oft hvassviðri og talsverð úrkoma að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Hæg vestlæg eða breytileg átt, en 3-8 V-til síðdegis. Skýjað á vestanverðu landinu og lítils háttar væta á stöku stað, annars bjart með köflum en sums staðar þokuloft við norður- og austurströndina. Hiti 9 til 17 stig, hlýjast á Suðausturlandi.
Á föstudag:
Vestlæg átt, 3-8 m/s, skýjað og sums staðar dálítil væta, en skýjað með köflum A-til. Hiti 9 til 16 stig, hlýjast á SA-landi.
Á laugardag:
Hæg vestlæg eða breytileg átt, skýjað að mestu og líkur á lítils háttar vætu S- og V-lands. Hiti 10 til 15 stig.
Á sunnudag:
Gengur í suðaustan 8-15 m/s með rigningu, en hægari og þurrt NA-lands fram á kvöld. Hiti 10 til 17 stig, hlýjast NA-lands.
Á mánudag:
Suðlæg eða breytileg átt og rignir víða um land, en áfram milt veður.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir austlæga átt með rigningu á köflum. Hiti 9 til 14 stig.