Milljarða tap hjá Reykjavíkurborg

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sá hluti Reykjavíkurborgar sem er fjármagnaður með skatttekjum, A-hluti, var neikvæður um 3.110 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins.

Sex mánaða árshlutareikningur Reykjavíkurborgar var afgreiddur í borgarráði í dag.

Rekstrarniðurstaðan skýrist einkum af lægri skatttekjum og lægri tekjum af sölu byggingarréttar en áætlanir gerðu ráð fyrir, að því er segir í tilkynningu frá borginni.

„Reykjavíkurborg sér nú skýr merki um heimsfaraldurinn í fjárhagsuppgjöri fyrstu sex mánaða. Þyngst vegur tekjusamdráttur vegna atvinnuleysis og minni umsvifa í efnahagslífinu. Áberandi tekjufall er einnig hjá Strætó og Faxaflóahöfnum. Hins vegar hafa aukin útgjöld fylgt viðbrögðum við Covid-19. Rekstur málaflokka hefur að öðru leyti gengið vel,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í tilkynningunni.  „Niðurstöðurnar eru í ágætu samræmi við sviðsmyndir og spár fjármálasviðs borgarinnar frá því í vor og undirstrika að standa þarf með sveitarfélögum við núverandi aðstæður enda bera þau uppi lykil grunnþjónustu í samfélaginu.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var neikvæð um 4.504 milljónir króna en áætlanir gerðu ráð fyrir talsvert betri afkomu.

Lakari rekstrarniðurstöðu samstæðunnar má einkum rekja til áhrifa lækkaðs álverðs og gjaldfærslu gengismunar vegna veikingar krónunnar frá áramótum hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Heildareignir samstæðunnar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í lok júní 724.530 milljónum króna en heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 378.064 milljónir króna. Eigið fé var 346.466 milljónir króna. Þar af var hlutdeild meðeigenda 18.859 milljónir króna.  Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er nú 47,8% en var 49,9% um síðustu áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert