Opnunarhátíð Demantshringsins, sem fara átti fram á laugardaginn síðastliðinn, verður haldin sunnudaginn 6. september á Dettifossvegi í nágrenni við Húsavík. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar verða á opnunarhátíðinni sem hefst með ávarpi Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar, Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Kristján Þór Júlíusson, munu klippa borða og opna þar með demantshringinn með formlegum hætti.
Demantshringurinn er 250 kílómetra langur hringvegur á Norðurlandi, sem fer framhjá Goðafossi, Mývatni, Dettifossi, Ásbyrgi og Húsavík. Markaðsstofa Norðurlands hvetur fólk í ferðaþjónustu sérstaklega til að koma á viðburðinn en vegna fjöldatakmarkana þurfa gestir að skrá sig á viðburðinn á vef Markaðsstofu Norðurlands.