Líkið sem fannst í Breiðholti fyrir viku er talið vera af eldri manni. Kennslanefnd á þó enn eftir að ljúka störfum og er málið í rannsókn. Þetta staðfestir Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Málið er á borði miðlægrar deildar lögreglunnar. Ekki náðist í lögreglumenn sem starfa innan hennar við vinnslu fréttarinnar.
Það var fullorðinn maður á gangi sem fann líkið við Hólahverfi í Breiðholti laust fyrir hádegi 21. ágúst síðastliðinn. Hann hafði verið á gangi í skógi neðan við hverfið þegar hann kom að líkinu og hafði samband við lögreglu.
Líkið fannst í brekku við Erluhóla á svæði sem er gróðri þakið og samkvæmt síðustu upplýsingum sem mbl.is hefur fengið um málið er ekki ósennilegt að líkið hafi verið þar um nokkurra mánaða skeið. Þá hefur til þessa ekki verið talið að neitt saknæmt hafi átt sér stað.
Uppfært kl. 13.20:
Miðlæg deild lögreglunnar hafði samband við mbl.is og sagði kennslanefnd ríkislögreglustjóra enn að störfum vegna líkfundarins og því væri ekki búið að bera kennsl á líkið, eins og mbl.is hafði áður greint frá eftir samtal við aðalvarðstjóra.