Fjórar vikur í einangrun en fjóra mánuði frá vinnu

Margét Gauja Magnúsdóttir var í einangrun í fjórar vikur en …
Margét Gauja Magnúsdóttir var í einangrun í fjórar vikur en í fjóra mánuði í veikindaleyfi. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Gauja Magnúsdóttir veiktist ekki illa af kórónuveirunni þegar hún smitaðist fyrst en langvinn veikindi hennar trufla hana enn, fimm mánuðum seinna. Margrét greindist fyrst 26. mars síðastliðinn, fimm dögum eftir að hún fór fyrst að finna fyrir einkennum. Hún segir það gríðarlega erfitt að veikjast af einhverju sem hvorki almenningur né sérfræðingar viti mikið um. Ein mesta hjálpin hefur komið frá stuðningshópi kórónuveirusjúklinga á Facebook sem hún stofnaði sjálf.

„Maður heldur stundum að maður sé bara að verða klikkaður. Ég meina hver hefði haldið fyrir nokkrum vikum síðan að ég myndi kúgast við það að drekka sódavatn.“ Margrét Gauja hefur glímt við einkenni kórónuveirunnar í rúma fimm mánuði og segist hún reglulega fá köst sem einkennast af miklum höfuðverkjum, minnisleysi, mæðu, sjóntruflunum, þreytu og lyktar- og bragðskynsbrenglun. Hún segist dofin í höndunum og hafi hún t.d. misst símann sinn í gólfið um daginn og brotið hann. Blaðamaður mbl.is tók hana tali.

Margrét Gauja Magnúsdóttir er fyrrum varaþingmaður Samfylkingarinnar.
Margrét Gauja Magnúsdóttir er fyrrum varaþingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta kemur í svona köstum og þau gera yfirleitt ekki boð á undan sér. Einn daginn er maður góður en hinn alveg gjörsamlega búinn á því. Ég er t.d. að ferma dóttur mína á morgun og ég veit bara að daginn eftir mun ég vera alveg „out“ allan daginn.“ Margrét lýsir fyrstu einkennum kórónuveirunnar sem magaverkjum og smá ertingu í hálsi. Sjúkdómurinn hafi aldrei farið ofan í lungu og fékk Margrét því aldrei mikinn hósta eins og svo margir aðrir.


 „Ég fór í einangrun í fjórar vikur um leið og ég smitaðist en ég var síðan fjóra mánuði í veikindaleyfi.“ Margrét var leiðsögumaður þar til í ágúst en hefur nú fundið sér annan starfsvettvang. Margrét segist hafa verið við göngu á Sólheimajökli tveimur dögum áður en hún smitaðist. „Þessi veira spyr ekkert að því hve hraustur maður er og það geta allir fengið svona tilfelli eins og ég. Þó ég hafi ekki veikst illa á sínum tíma er ég enn að díla við þetta.“

Stuðningur fékkst í Facebook-hóp

Margrét segir það hafa verið gríðarlegan létti þegar Facebook-hópur sem hún stofnaði, Við fengum Covid19, komst á flug en þar deila þeir sem smitast hafa af kórónuveirunni sögum sínum og bera saman bækur sínar. Hópurinn er aðeins opinn þeim sem smitast hafa eða aðstandendur þeirra.

„Ég er alveg gríðarlega þakklát fyrir þennan hóp vegna þess að þarna les maður sögur annarra sem hafa líka fengið COVID-19 og þá fær maður staðfestingu á því að þetta sé ekki allt bara í hausnum á manni. Maður heldur stundum að maður sé bara að verða klikkaður. Ég meina hver hefði haldið fyrir nokkrum vikum síðan að ég myndi kúgast við það að drekka sódavatn.“

Læknar fá að fylgjast með

Í hópnum eru þó nokkrir sérfræðingar og læknar sem fylgjast með ástandi sjúklinga og sögum þeirra af veikindum. Hópurinn var stofnaður 5. apríl síðastliðinn og telur nú um 700 meðlimi. Margrét vonar að fleiri sem fengið hafa kórónuveiruna finni stuðning með því að ganga í hópinn.

Margrét biðlar til þeirra sem eiga aðstandendur í sömu sporum og hún að trúa frásögnum þeirra sem glíma við kórónuveiruna. Málið sé grafalvarlegt. „Mig langar ekkert að bezzerwizzer-ast í þeim sama fara kannski óvarlega í sínum sóttvörnum en ég vil aðallega segja við þá sem þekkja einhvern eða heyra frásögn einhverra sem eru í sömu málum og ég, að í guðanna bænum trúið viðkomandi. Þetta er ekkert grín.“

Margrét segist að lokum vinna hörðum höndum að því að ná fyrri styrk. Markviss vinna stendur yfir að komast upp á Sólheimajökul aftur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert