Heilt yfir gengið vel hér á landi frá upphafi

Ragnar Freyr Ingvarsson læknir.
Ragnar Freyr Ingvarsson læknir.

Umsjónarlæknir COVID-göngudeildar landspítalans, Ragnar Freyr Ingvarsson, segir að vel hafi gengið undanfarið að hlúa að sjúklingum á deildinni. Aðeins hafi fjórir sjúklingar verið lagðir inn það sem af er seinni bylgju og enginn látist. Mikinn lærdóm hafi verið hægt að draga af fyrri bylgjunni sem nýttist í seinni bylgju, en ógætilegt væri að fullyrða að það stuðli að lægri dánartíðni.

Sex ný smit greindust hér á landi á þriðjudag og þrjú til viðbótar við landamæri. Einn er á sjúkrahúsi. Þegar hæst bar, 2. apríl, voru 44 samtímis á sjúkrahúsi vegna kórónuveirusmits. Degi áður, 1. apríl, voru flestir á gjörgæslu samtímis eða 14 manns. Um 115 manns hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús hér á landi frá upphafi faraldursins

Dánartíðni almennt lág

„Það hefur gengið bara ágætlega,“ segir Ragnar Freyr við blaðamann þegar hann var spurður hvernig gengið hefði síðustu daga. „Það hafa einungis fjórir þurft innlögn hjá okkur og bæði hefur gengið vel að hlúa að þeim líkt og þeim sem ekki þurftu innlögn en voru samt veikir.“

Ragnar segir að heilt yfir hafi tekist vel til á Íslandi að glíma við kórónuveiruna. „Dánartíðni hér á landi hefur verið lág miðað við annars staðar og við höfum náð að vernda sjúkrahúsin og gjörgæsluna fyrir því að allt fyllist af sjúklingum.“

Vekur athygli erlendis

Fjallað var um það í grein í Journal of Internal Medicine í júní hvernig íslenskt heilbrigðiskerfi tókst á við áskoranir tengdar kórónuveirunni. Ragnar Freyr kom að skrifum greinarinnar ásamt öðrum íslenskum læknum og sérfræðingum og segir Ragnar að tímaritið sé virt meðal lækna og sérfræðinga í heilbrigðisgeiranum.

Hann segir varasamt að fullyrða um að lægri dánartíðni á heimsvísu skýrist af því að heilbrigðisstarfsfólk sé orðið betra í að meðhöndla smitaða sjúklinga. „Alla jafna er yngra fólk minna veikt, já, og yngra fólk smitast nú í meira mæli. Það þýðir samt ekkert endilega að færni heilbrigðisfólks skipti þar marktækum sköpum. Við erum vissulega orðin færari í að glíma við þessa veiru og vitum meira um hana en svo hefur dánartíðni almennt bara verið lág á Íslandi. Bæði í fyrri bylgju og þeirri seinni.“

Verklagi ekki verið breytt

Ragnar segir að þrátt fyrir að sjúklingar á COVID-göngudeild landspítalans hafi verið yngri í seinni bylgjunni miðað við þá fyrri þá hafi verklagi ekkert verið breytt. „Við erum í raun að meðhöndla sjúklinga með sama hætti og áður og reynum áfram að sníða meðhöndlun sjúklinga að hverjum sjúklingi eins og hægt er. Það höfum við alltaf gert og munum gera áfram.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. ágúst. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert