„Hér verða ekki töfruð fram störf á næstu vikum“

Logi Einarsson, formaður og þingmaður Samfylkingarinnar, í ræðustól Alþingis.
Logi Einarsson, formaður og þingmaður Samfylkingarinnar, í ræðustól Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum í dag hvort hún væri sammála fjármálaráðherra sem Logi sagði að mæti það sem svo að hærri atvinnuleysisbætur hefðu „letjandi áhrif á atvinnuleitun“. Katrín sagðist ekki „treysta sér“ til að halda því fram. 

Þá spurði Logi Katrínu hvort það kæmi til greina að hækka grunnatvinnuleysisbætur. Hún sagði ekkert útilokað í þeim efnum en sagði mikilvægast núna að lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Ríkisstjórnin stefnir á að lengja það um þrjá mánuði. 

Grunnatvinnuleysisbætur hafi hækkað

Katrín sagði í svari sínu til Loga að árið 2018 hafi grunnatvinnuleysisbætur staðið í 227.000 krónum og væru þær í dag einungis 238.000 krónur ef engu hefði verið breytt og þær bara hækkað í samræmi við vísitölu. Grunnatvinnuleysisbætur eru nú 289.510 krónur á mánuði og væru hærri en ella vegna þess að ríkisstjórnin hefði „stigið mjög stór skref þegar kemur að málefnum atvinnuleysisbóta.“ Atvinnuleysisbætur höfðu ekki hækkað um meira en það sem vísitöluhækkun nam síðan í hruninu þegar ríkisstjórnin tók umrædd skref sem urðu til hækkunar þeirra.

Logi benti á að vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveiru muni tugir þúsunda missa vinnuna og ráðstöfunartekjur heimilanna jafnvel helmingast. Fólk muni þurfa að neita sér um ýmislegt, jafnvel nauðsynlega læknisþjónustu. 

Katrín sagði að mikilvægast væri að skapa fleiri störf. Því svaraði Logi með eftirfarandi hætti: „Hér verða ekki töfruð fram störf á næstu vikum, þó hægt væri að gera meira en ríkisstjórnin ætlar sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert