Isavia segir upp 133 starfsmönnum

Fregnir hafa borist um hópuppsögn á Keflavíkurflugvelli.
Fregnir hafa borist um hópuppsögn á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Isavia, rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, hefur sagt upp 133 starfsmönnum frá og með næstu mánaðamótum. Tólf starfsmönnum til viðbótar verður boðið lægra starfshlutfall. Í tilkynningu segir að þetta sé gert vegna aðgerða stjórnvalda við landamæri. Vel hafi gengið í sumar þrátt fyrir erfiðleika en ákvörðun um tvöfalda skimun við landamærin hafi veitt náðarhöggið.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir að staðan muni vera endurskoðuð reglulega. Óvissa á flugmarkaði sé mikil en Isavia sé reiðubúið að bregðast hratt við ef glæða tekur í rekstri félagsins. Frá því kórónuveirufaraldurinn hófst hefur stöðugildum hjá Isavia fækkað um 40%

Isavia sagði 101 starfsmanni upp í vor þegar kórónuveirufaraldurinn braust fyrst út.

Sveinbjörn óskar starfsfólki sem sagt hefur verið upp velfarnaðar og segist vona að leiðir þess við Isavia liggi saman á ný fyrr en síðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert