Takmarkanir samkvæmt auglýsingu á samkomum vegna farsóttar tóku gildi á miðnætti. Auglýsingin gildir til 10. september nk. klukkan 23.59. Nýmæli í auglýsingunni eru þau að snertingar á æfingum í sviðslistum og tónlist verða heimilar, sem og í kvikmyndatöku. Miðast reglur um snertingar í þessum aðstæðum við sömu reglur og snertingar í íþróttum. Þeim reglum eru gerð skil hér að neðan.
Fjöldatakmörkun helst í 100 manns og miðast við fullorðna einstaklinga, börn fædd 2005 eða síðar eru undanskilin þeirri takmörkun.
Almenn nálægðartakmörkun er einnig áfram tveir metrar. Samkvæmt skilgreiningu sóttvarnalæknis á henni er fólk hvatt til að viðhafa sem oftast tveggja metra nálægðartakmarkanir í umgengi við aðra, sérstaklega óskylda eða ótengda aðila.
Í framhalds- og háskólum er þó heimilt að hafa einn metra á milli einstaklinga án þess að andlitsgrímur séu notaðar.
„Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Þar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra fjarlægð milli einstaklinga þarf að nota andlitsgrímu sem hylur nef og munn. Þetta á t.d. við um almenningssamgöngur, þ.m.t. innanlandsflug og farþegaferjur, og starfsemi s.s. hárgreiðslustofur og nuddstofur,“ segir í tilkynningu á covid.is um málið.
„Snertingar eru heimilar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum. Aftur á móti skal virða 2 metra nálægðartakmörkun í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Aðrir, meðal annars þjálfarar, starfsmenn og sjálfboðaliðar, skulu einnig virða 2 metra nálægðartakmörkun. Þær íþróttagreinar sem ekki heyra undir ÍSÍ (Íþrótta- og ólympíusamband Íslands) skulu setja sér leiðbeiningar eða fylgja sömu leiðbeiningum og sambærilegar íþróttagreinar innan ÍSÍ.“
Þá verða takmarkanir vegna sérstakrar smithættu í líkamsræktarstöðvum og á sund- og baðstöðvum þær sömu og áður. Gestir mega þar aldrei vera fleiri en nemur helmingi eða minna af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi.
„Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar. Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu.