Marinó Magnús Guðmundsson, verslunarstjóra Rúmfatalagersins á Selfossi, sem var frá vinnu í nokkra daga í sumar vegna veikinda, hefur verið sagt upp störfum nær fyrirvaralaust og án útskýringar að því er fram kemur í færslu sem birtist í dag á facebooksíðu eiginkonu hans. Maðurinn mætti aftur til vinnu 6. júlí eftir að hafa gengist undir aðgerð vegna heilaæxlis en 27. júlí var honum sagt upp og var þess ekki óskað að hann ynni uppsagnarfrest.
Í facebookfærslunni segir að 1. apríl hafi Marinó komið heim frá vinnu og kvartað undan höfuðverk. Hann hafi misst sjónina í smástund og „séð stjörnur“ en þrátt fyrir það klárað vinnudaginn. Þá fór hann í skoðun á Heilbrigðisstofnun Suðurlands en ekkert kom út úr þeirri skoðun. Í lok apríl hafi síðan komið í ljós, eftir þónokkrar skoðanir, að hann væri með heilaæxli, rétt við heiladingulinn.
Marinó fór síðan í aðgerð 14. maí og var æxlið fjarlægt. Aðgerðin gekk vel og ætlaði Marinó upphaflega að mæta aftur til vinnu 1. júní en ákvað síðan að taka sér örlítið lengri tíma til þess að jafna sig. Marinó byrjaði síðan að vinna aftur 6. júlí og var, eins og áður sagði, sagt upp störfum 27. júlí. Tinna, eiginkona Marinós, segir í facebookfærslu sinni að í uppsagnarbréfi Rúmfatalagersins hafi sagt að vegna skipulagsbreytinga væri þjónustu Marinós ekki lengur óskað.
Ekki náðist í framkvæmdastjóra Rúmfatalagersins við vinnslu fréttarinnar.
Fréttablaðið greindi fyrst frá.