Þurfi 550 þúsund skammta af bóluefni

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ákveðið hefur verið að kaup bóluefna gegn COVID-19 hér á landi fari fram á grundvelli samninga  Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur þegar gert samning við sænsk-breska fyrirtækið AstraZeneca um kaup á bóluefni og samningaviðræður ESB við fleiri framleiðendur bóluefna standa yfir.

Þetta kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti málið á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Ísland mun njóta góðs af Evrópusamstarfinu fyrir milligöngu Svíþjóðar sem hefur heimild til að framselja ríkjum EES, þar á meðal Íslandi og Noregi, bóluefni á grundvelli samninga ESB og hefur lýst sig reiðubúið til þess. 

Gert er ráð fyrir að hér á landi þurfi um 550 þúsund skammta af bóluefni. Er þá miðað við að bólusetja um 75% þjóðarinnar til að ná fullnægjandi hjarðónæmi og að hver einstaklingur verði bólusettur tvisvar.

Bóluefni AstraZeneca er ekki komið með markaðsleyfi í Evrópu en er á lokastigum prófana og eru vonir bundnar við að unnt verði að taka það í notkun í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. Eins og áður segir á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í viðræðum um samninga við fleiri framleiðendur bóluefna en tíminn mun leiða í ljós hvaða bóluefni verða fyrst tilbúin til notkunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert