Tilkynningar hafa borist Veitum um að meiri lykt sé af heita vatninu í Kópavogi og Hafnarfirði en vant er. mbl.is hefur fengið ábendingar um að um hveralykt sé að ræða. Veitur kanna nú hvað þessu veldur en líklega tengist lyktin viðhaldi á Nesjavallavirkjun. Engin hætta er á ferðum, samkvæmt upplýsingafulltrúa Veitna.
„Við erum að fá inn einhverjar tilkynningar um að það sé meiri lykt af heita vatninu. Við erum að kanna hvað veldur,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna.
„Við erum í viðhaldi á Nesjavallavirkjun þannig að núna kemur allt heita vatnið frá Hellisheiðarvirkjun, ekki báðum eins og venjulega. Við höfum gert þetta áður og það hefur ekki valdið þessu. Það gæti verið að þessi breyting hafi orðið til þess að eitthvað hafi breyst eða lyktin hafi aukist.“
Vatnið kemur úr Suðuræð, einni af meginæðum höfuðborgarsvæðisins, en Veitur þurftu að loka fyrir hana um daginn með þeim afleiðingum að heitavatnslaust var í hluta höfuðborgarsvæðisins. Viðhaldið á Nesjavallavirkjun tengist ekki þeirri lokun, að sögn Ólafar sem segir enga hættu á ferðum.