Aðgerðastjórn virkjuð vegna rútuslyss

Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leið á slysstað.
Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leið á slysstað. mbl.is/Árni Sæberg

Þjóðvegi 1 við Skeiðarársand hefur verið lokað en smárúta með sjö innanborðs fór þar út af veginum og hefur hópslysaáætlun verið virkjuð vegna þess.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er sjúkraflugvél frá Akureyri á leið á vettvang sem og þyrla Landhelgisgæslunnar.

Allir sem voru í rútunni eru með meðvitund en ekki liggur fyrir hve alvarleg meiðsli þeirra eru.

Aðgerðastjórn almannavarna hefur verið virkjuð á Selfossi og samhæfingarstöð hefur verið virkjuð í Skógarhlíð í Reykjavík.

Uppfært kl. 20:12: Slysið var tilkynnt til Neyðarlínu um kl. 18:45 í kvöld og þá þegar var hópslysaáætlun fyrir Suðurland virkjuð.

Rútan virðist hafa farið út af veginum og oltið. Allir í bílnum eru með meðvitund en a.m.k. einhverjir hlutu beinbrot. Ein þyrla LHG er á leið á vettvang ásamt sjúkraflugvél frá Akureyri. Önnur þyrla er í startholunum. Búið er að afturkalla björgunarsveitir í Árnes og Rangárvallasýslu enda talið að bjargir á svæðinu auk sjúkraflutninga sem er á leið á vettvang ráði vel við verkefnið.

Uppfært kl. 21:58: Báðar þyrlurnar eru farnar af vettvangi með alla sem voru í rútunni.Rannsóknarvinna lögreglu er í gangi á vettvangi og enn má búast við umferðartöfum þar hjá. Lögreglan á Suðurlandi þakkar öllum viðbragðsaðilum fyrir þeirra aðkomu að verkefninu.

Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð á Höfn og verður opnuð í hjá RKÍ í Efstaleiti fyrir aðstandendur hinna slösuðu.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert