Andlát: Þóra Hallgrímsson

Þóra Hallgrímsson.
Þóra Hallgrímsson. Ljósmynd/Aðsend

Þóra Hallgrímsson athafnakona er látin, níræð að aldri. Þóra var eiginkona Björgólfs Guðmundssonar kaupsýslumanns. Þau gengu í hjónaband árið 1963.

Þóra eignaðist fimm börn: Örn Friðrik Clausen, f. 1951, d. 2020. Hallgrím Björgólfsson, f. 1954, Margréti Björgólfsdóttur, f. 1955, d. 1989, Bentínu Björgólfsdóttur, f. 1957, og Björgólf Thor Björgólfsson, f. 1967. Fyrsti eiginmaður Þóru var Haukur Clausen, f. 1928, d. 2003. Þau skildu. Þóra giftist síðar George Lincoln Rockwell. Þau skildu. Afkomendur Þóru eru 23 talsins.

Þóra fæddist í Reykjavík, dóttir hjónanna Hallgríms Fr. Hallgrímssonar, forstjóra Skeljungs og aðalræðismanns Kanada, og Margrétar Þorbjargar Thors. Margrét var dóttir Thors Jensen athafnamanns og Margrétar Þorbjargar Kristjánsdóttur og systir Ólafs Thors forsætisráðherra. 

Björgólfur Guðmundsson, systurnar Þóra og Elína Hallgrímsson og Ragnar Guðmundsson …
Björgólfur Guðmundsson, systurnar Þóra og Elína Hallgrímsson og Ragnar Guðmundsson eiginmaður Elínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þóra fór í heimavistarskóla í Bretlandi, Abbots Hill School, við stríðslok árið 1945. Í kjölfarið flutti hún til London þar sem hún lagði stund á frekara nám við St. Godric's College. Þaðan fór hún til Bandaríkjanna þar sem hún nam við Centerary School. Þessi námsár hennar erlendis á unga aldri við stríðslok höfðu mótandi áhrif á hana enda ástandið afar erfitt á Englandi á þessum tíma eftir sprengjuregn árum saman. 

Þóra starfaði í Útvegsbanka Íslands og síðar, ásamt húsmóðurstörfum, vann hún að málefnum Sálarrannsóknarfélags Íslands og Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna.  

Í viðtali við Lifðu núna sem birtist fyrr á árinu sagði Þóra að hún hefði ekki hafa viljað binda sig í félagsskap þar sem hún hefði skyldum að gegna því hún hefði verið mikið á ferðalögum um ævina. Hún hefði látið leikfimi og brids nægja því þar skipti minna máli ef meðlimir mættu ekki alltaf því það væri varamaður til taks. Hún sagði að það væri hins vegar svo skemmtilegt að hitta „stelpurnar“ að meðlimir mættu nánast alltaf nema um veikindi væri að ræða.

Þegar Þóra var beðin í viðtalinu að gefa fólki ráð eftir langa ævi sagðist hún vilja minna alla á að reyna af fremsta megni að njóta hvers tímabils því alltaf væri hægt að sjá ljósu hliðarnar.

„Lífið býður okkur upp á svo mismunandi aðstæður á mismunandi tímum,“ sagði Þóra. „Stundum hef ég hikað og hugsað með mér: Ah, þetta er nú aðeins of mikið og hvað er nú ætlast til að ég læri af þessu? En þegar frá líður hefur yfirleitt komið í ljós að ég hef getað sagt við sjálfa mig: Já, það var sannarlega gott að ég upplifði þetta þótt það hafi verið erfitt á meðan á því stóð.“

Niðurstaðan var því sú að Þóra hefði lært eitthvað af öllu því sem henti hana um ævina. „Maður sér það bara ekki á meðan hlutirnir eru að gerast en öll él birtir upp um síðir. En um leið og ég segi það veit ég að auðvitað komast ekki allir farsællega út úr lífinu. Það eru til aðstæður sem við ráðum ekki við. En vonandi erum við svo lánsöm hér á Íslandi að geta hjálpað þeim sem þurfa á því að halda. Ég hef sjálf verið heppin,“ segir Þóra í viðtali við Lifðu núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert