Auðveldara verður fyrir rafbílaeigendur í fjölbýli að koma fyrir hleðsluaðstöðu á bílastæði í kjölfar lagabreytinga sem urðu í byrjun sumars. Eigendur í fjölbýlishúsi geta nú óskað eftir og fengið hleðsluaðstöðu fyrir rafbíla án einróma samþykkis húsfélags, eins og þurfti fyrir lagabreytinguna.
Þetta segir Tinna Andrésdóttir, lögfræðingur hjá Húseigendafélaginu, í samtali við mbl.is, en hún var viðstödd fund um lagabreytingarinnar. Fundurinn var haldinn á vegum Verkís og var Tinna fengin til að útskýra lagabreytingarnar og mögulegar afleiðingar þeirra fyrir viðstöddum.
Breytingarnar auðvelda íbúum fjöleignarhúsa að koma fyrir hleðsluaðstöðu fyrir rafbíla á sameinginlegum bílastæðum. „Rafbílum er gert hærra undir höfði,“ segir Tinna.
Eins og lögin voru áður, útskýrir Tinna, var ekkert kveðið á um rafmagnsbíla, og voru bílastæði sem tekin voru undir hleðsluaðstöðu fyrir rafbíla flokkuð sem hagnýting sameiginlegra bílastæða. Til slíkrar hagnýtingar þurfti einróma samþykkis húsfélags, og gat því verið flókið að koma fyrir hleðslustöð.
Eftir breytingar getur mögulegur rafbílaeigandi óskað eftir að úttekt á framtíðarþörf og kostnaði verði framkvæmd af stjórn húsfélags, og er kostnaður við úttekt jafnskiptur meðal íbúa fjölbýlisins.
Tinna segir að ekki hafi farið mikið fyrir umræðu um lagabreytingarnar, þótt þær hafi verið samþykktar í byrjun sumars. Hún segir að þær séu mikilvægur þáttur til að uppfylla orkustefnu ríkisstjórnar, og muni hafa mikil áhrif á mögulega rafbílaeigendur í fjölbýli.
Á fundi Verkís um breytingarinnar heyrði Tinna nokkrar óánægjuraddir um að kostnaður vegna hleðsluaðstöðu muni falla að einhverju leyti á íbúa fjölbýlis sem munu ekki nýta sér hleðslustöðvarnar. Þá séu einstaklingar sem vilja ekki – eða hafa ekki efni á því að – kaupa sér rafbíl að greiða undir þá sem kaupa rafbíl.