Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson hefur ákveðið að bjóða sig fram til forseta Ungra jafnaðarmanna á komandi landsþingi hreyfingarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Óskari.
„Ég er 26 ára gamall Hafnfirðingur og starfa sem leiðbeinandi í leikskóla. Ég hef verið virkur í starfi Ungra jafnaðarmanna og Samfylkingarinnar frá því árið 2013 og hef undanfarin tvö ár gegnt embætti varaforseta UJ.
Ungir jafnaðarmenn hafa sýnt það áður að hreyfingin getur haft gríðarleg áhrif á stefnu Samfylkingarinnar, veitt forystu flokksins mikilvægt aðhald og reynst honum ómissandi liðskraftur í kosningabaráttu.
Fram undan er landsfundur Samfylkingarinnar og mikilvægur kosningavetur. Verkefni Ungra jafnaðarmanna verða mörg og krefjandi. Á landsfundi verðum við að berjast fyrir framsækinni og róttækri stefnu og vinna að framgangi ungs fólks í stofnunum flokksins. Fram að kosningum þurfum við að sjá til þess að ungt fólk verði ofarlega á framboðslistum og eigi raunverulegan möguleika á þingsætum. Stærsta verkefnið verður svo að koma Samfylkingunni í stöðu til að leiða vinstrisinnaða ríkisstjórn án aðkomu Sjálfstæðisflokksins eftir næstu kosningar.
Landsþing Ungra jafnaðarmanna fer fram í Reykjavík laugardaginn 5. september næstkomandi.“