Flestir um borð drengir á unglingsaldri

Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allir sem voru um borð í smárútunni sem fór út af veginum við Skaftafell í gær voru fluttir á Landspítalann með þyrlu. Um var að ræða unglingsdrengi frá Höfn í Hornafirði ásamt ökumanni sem voru á heimleið eftir knattspyrnuleik. Lögreglan á Suðurlandi hefur ekki fengið nýjar fregnir af líðan þeirra en allir voru með meðvitund en einhverjir voru beinbrotnir.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að einn þeirra hafi í raun verið lítið sem ekkert meiddur en ákveðið hafi verið að flytja alla með tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar á Landspítalann. Fjórir fóru með fyrri þyrlunni og þrír þeirri seinni.

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.
Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Í fyrstu var talið að rútan hefði oltið en svo var ekki. Oddur segir að bifreiðinni hafi verið ekið töluverðan spöl í kantinum eftir að ökumaðurinn missti stjórn á henni. Þaðan hafnaði hún fyrir utan veg og ofan í lækjarfarvegi og hentist til en valt ekki.

Slysið var tilkynnt til Neyðarlínu um kl. 18:45 og var hópslysaáætlun fyrir Suðurland strax virkjuð. Oddur segir menn alltaf geta velt því fyrir sér hvort þörf hafi verið á því en alltaf sé betra að fara af stað með meiri viðbúnað en minni á meðan upplýsingar eru enn óljósar á vettvangi.

Sjúkraflugvél frá Akureyri lenti á Höfn í Hornafirði og var tilbúin til að flytja slasaða til Reykjavíkur. Það þótti aftur á móti ekki skynsamlegt að aka með slasaða 130 kílómetra til Hafnar þar sem sjúkraflugvélin gat ekki lent á flugvöllunum á Fagurhólsmýri eða Skaftafelli þar sem hvorugur þeirra er með slitlagi.

Oddur segir að á sama tíma og við séum með gríðarlega flutningsgetu með sjúkraflugvélum sé ekki hægt að lenda þeim á flugvöllum landsins. Hann segir að í einu slysi hafi verið notast við Twin Otter-flugvél sem getur lent nánast hvar sem er. Þá lenti sjúkra­flug­vél frá Nor­landa­ir sem kom frá Ak­ur­eyri og lenti á Fag­ur­hóls­mýri. En þessar hefðbundnu sjúkraflugvélar geti ekki lent á malarvöllunum að sögn Odds.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka