Á B47 hosteli eru hostelherbergi nú markaðssett fyrir erlenda stúdenta, í tilraun eigenda til að halda rekstrinum gangandi þar til ferðamenn fari aftur að koma til landsins. Herbergin eru fyrir 1-6 og kostar hvert svefnpláss frá 40.000 krónum til 120.000 króna mánaðarlega. Eftirspurnin er töluverð, að sögn eiganda hostelsins.
„Við höfum verið með hostel og hótel þarna frá 2013. Nú eru náttúrlega engir ferðamenn svo í stað þess að láta þetta standa tómt ákváðum við að reyna þetta og höfðum þá kannski frekar til erlendra stúdenta,“ segir eigandinn, Þorsteinn Steingrímsson.
Hostelherbergi eru almennt nýtt af ferðamönnum sem dvelja þar um skamma hríð. Spurður hvort þau séu viðunandi til að búa í til langframa segir Þorsteinn:
„Já. Þetta eru allt saman herbergi með handlaugum og hárþurrkum. Þetta eru bara fínustu hótelherbergi.“
Þorsteinn segir að stefnan sé helst að þeir sem búi saman í herbergjum þekkist eða kannist í það minnsta hver við annan. Í herbergjum þar sem fleiri en þrír búa eru almennt kojur og rúm. Þvegið er af rúmum fyrir leigjendur og herbergin þrifin. Sameiginleg baðherbergi eru til staðar ásamt eldunar- og afþreyingaraðstöðu.
Bara í hádeginu í dag lofaði Þorsteinn þremur herbergjum til útleigu svo eftirspurnin er töluverð. Þorsteinn segir augljóst að erlendir stúdentar eigi erfitt með að fá húsnæði á Íslandi, til dæmis á stúdentagörðum, og því fagni þeir möguleikanum á að fá að leigja hjá B47. Tveir af þeim sem ræddu við Þorstein í dag vildu komast úr því húsnæði sem þeir dvelja í núna og komast í samneyti við annað fólk, sem hefur reynst einhverjum erfitt í samkomubanni.
„Það er smá kommúnustíll á þessu. Fólk getur eldað saman og borðað saman og farið í Sundhöllina sem er í næsta húsi við okkur,“ segir Þorsteinn. Herbergin eru sótthreinsuð á tíu daga fresti.
Þótt eftirspurn sé fyrir hendi eru tekjurnar af þessari starfsemi mun minni en af því að leigja ferðamönnum stöku nætur, að sögn Þorsteins.
Þar sem B47 stendur nú stóð áður gamla heilsuverndarmiðstöðin. Í kvöldfréttum RÚV í apríl í fyrra var ástæða fyrirhugaðra flutninga Landlæknis úr gömlu heilsuverndunarmiðstöðinni sögð mygla. Spurður um það segir Þorsteinn að hostelið sé í aðskildu húsnæði og þar hafi aldrei verið mygla. Sú mygla sem hafi verið í húsnæði Landlæknis hafi verið embættinu að kenna.