14 greinst með veiruna við síðari skimun

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna. Ljósmynd/Lögreglan

Fjórtán hafa greinst með kórónuveiruna við seinni skimun eftir komuna til landsins. Þar af hafa þrír greinst með veiruna við seinni sýnatöku eftir að nýjar reglur tóku gildi 19. ágúst. 

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Þórólfur segir að nýgreiningum á innanlandssmitum hafi farið fækkandi undanfarið. Heildarfjöldi virkra smita hefur minnkað líka og er nú rúmlega 100 og hafa flestir verið í sóttkví við greiningu. Að mati Þórólfs bendir þetta til þess að við séum að ná utan um þann faraldur sem er í gangi hér innanlands. 

Nánast öll smit eru af völdum einnar og sömu undirtegundar veirunnar segir Þórólfur. Áfram megi búast við nokkrum tilfellum á dag og jafnvel minni hópsýkingum. Enginn er inniliggjandi á sjúkrahúsi, en alls hafa fimm þurft að leggjast inn vegna veirunnar frá 15. júní, einn hefur þurft að fara á öndunarvél. Ef það hlutfall er borið saman við þá sem þurftu öndunaraðstoð í fyrstu bylgju veirunnar í vetur er ekki marktækur munur þar á. Þórólfur segir að því sé ekki hægt að segja að veiran sé vægari nú en í vetur. 

Þeim sem greinast á landamærum hefur heldur fjölgað segir Þórólfur. Rúmlega 90 hafa greinst á landamærum frá 15. júní svo við getum sagt að með þessari skimun hefur tekist að koma í veg fyrir að allavega 90 smitaðir einstaklingar kæmu inn í samfélagið og smituðu aðra. Meirihluti þeirra sem greinst hafa með veiruna við landamæraskimun er með íslenskt ríkisfang. Af þeim rúmlega 90 sem greinst hafa með veiruna við landamæraskimun hafa fjórtán greinst í seinni sýnatöku. Það er hærra hlutfall en Þórólfur segist hafa búist við en sýnir að seinni skimun hefur komið í veg fyrir að 14 einstaklingar sem fyrri skimun missti af hafi farið smitandi inn í samfélagið.

Á þeim 12 dögum sem liðnir eru síðan nýjar reglur við landamærin tóku gildi hafa níu greinst jákvæðir í fyrri skimun og þrír í seinni sýnatöku. Þórólfur segir að við getum verið ánægð með þann árangur sem hefur náðst og að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til skili árangri.  

Aðgerðir hér eru síður en svo harðari en í mörgum öðrum löndum segir Þórólfur og bætir við að mikilvægt sé að halda áfram skimun á landamærum. Réttast væri að slaka fyrst á takmörkunum innanlands og skoða síðan fyrirkomulag við landamærin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert