Fullt út úr dyrum í mótefnamælingu hjá Sameind

Starfskonur hjá Sameind.
Starfskonur hjá Sameind. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir helgi höfðu 1.400 manns farið í mótefnamælingu vegna kórónuveirunnar hjá rannsóknarstofunni Sameind. Það sem af er deginum í dag hefur verið fullt út úr dyrum.

Þetta segir Sturla Orri Arinbjarnarson, sérfræðingur í ónæmisfræði. Fyrirspurnir hafa sömuleiðis borist utan af landi. „Það hefur greinilega verið mikil þörf fyrir þetta,“ segir hann.

Mótefnamælingin hjá stofunni, sem er einkarekin, hófst í júní en mælingin fer fram í Glæsibæ, Domus Medica og á Höfða.

Skiptir máli að vita 

„Við fundum fyrir því að fólk var mikið að spyrjast fyrir um þetta. Við töldum líka mikilvægt að fólk gæti aflað sér þessara upplýsinga því það skiptir máli að vita þetta,“ segir Sturla Orri, spurður út í tilurð mælingarinnar. Þannig getur fólk sem er með undirliggjandi sjúkdóma og hefur fengið Covid-19, hagað lífi sínu með öðrum hætti og verið frjálsara. Einnig skiptir máli fyrir þá sem hafa ferðast erlendis og greinst jákvæðir að hafa farið í mælinguna því þá geta þeir framvísað vottorði og þurfa ekki að fara í sóttkví, bætir hann við.

Sömuleiðis segir hann að þegar bólusetning hefst gegn veirunni sé gott að vita hverjir eru búnir að fá hana og eru búnir að mynda mótefni. Veiruprófið, sem er það sama og Landspítalinn og Íslensk erfðagreining hafa notast við, kostar ásamt blóðsýnatökunni rúmlega 4.000 krónur.

Aðeins Sameind og sýkla- og veirufræðideild Landspítalans hafa leyfi til að greina tilkynningarskylda sjúkdóma og ber Sameind að senda allar upplýsingar til sóttvarnalæknis. Eru þau því í nánu samband við hann.

Átta prósent með mótefni 

Alls hafa um átta prósent þeirra sem hafa leitað til fyrirtækisins greinst með mótefni við veirunni. Sturla Orri segir úrtakið hjá stofunni vera skekkt því þangað komi fólk með óvirkar sýkingar sem hafi áður sýkst eða fólk sem hefur fengið einhver einkenni. Ekki er því hægt að nota upplýsingarnar í tölfræðilegum tilgangi. Þeir sem eru í sóttkví eiga ekki að mæta í mótefnamælinguna. 

Spurður hvort það komi honum á óvart hversu margir hafa leitað til Sameindar játar hann bæði og neitar. „Ég vissi að það voru svo margir sem fengu óljós einkenni í mars og apríl og fóru aldrei í neitt próf. Þetta fólk þarf að vita þetta og ég finn að fólk vill vita þetta,“ segir Sturla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert