Tíðni netglæpa heldur áfram að aukast að sögn Gísla Jökuls Gíslasonar, rannsóknarlögreglumanns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en fjársvik jukust um 27% á árinu 2019 samkvæmt afbrotaskýrslu ríkislögreglustjóra.
„Við höfum því miður séð ljót mál þar sem einstaklingar missa kannski allan sparnaðinn og allt í einu eru þeir farnir að taka lán til þess að mata glæpamanninn sem er að selja þeim lygasögu,“ segir hann. Algengt sé að þeir sem lendi í svindli skammist sín og leiti því síður hjálpar.
„Þá kemur skömmin. Fólk hugsar um að það hafi verið platað í stað þess að hugsa um að þetta hafi verið skipulögð glæpastarfsemi,“ segir hann.
Auk þess sem svindlið virðist enn vera að aukast á þessu ári sjást nú ýmis mynstur sem sýna hvaða hópar eru helst berskjaldaðir fyrir netglæpum á borð við netsvindl, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.