Fjöldi þeirra farþega sem komið hafa hingað til lands síðustu daga er að meðaltali um 600 á dag. Viðbúið er að frekari samdráttur verði í komum farþega í september.
Fram kom í máli Páls Þórhallssonar, verkefnastjóra hjá forsætisráðuneytinu, á upplýsingafundi almannavarna í dag að farþegafjöldi hefði verið að sveiflast á milli 500 og 1.000 frá því að nýjar reglur tóku gildi á landamærum 19. ágúst.
Þá segir Páll að sömuleiðis hafi dregið verulega úr komum einkaflugvéla til landsins sem og farþega sem hingað koma með Norrænu. Páll segir að horft sé fram á frekari samdrátt í komu ferðamanna í september. Ekki sé mikið um nýjar bókanir, en þó hafi verið fyrirséð að farþegafjöldi yrði minni í september áður en nýjar reglur á landamærum tóku gildi.
Páll segir það hafa verið vitað að færri farþegar kæmu til landsins í ágúst óháð hertum reglum, þar sem flestir hafa þá lokið sumarleyfi. Það gefi augaleið að ekki sé mikil eftirspurn eftir dæmigerðum helgar- eða haustferðum og það sé fyrirsjáanleg afleiðing hertra reglna.
Þar sem heimsfaraldur kórónuveirunnar sé á uppleið víða um heim segir Páll það verða að koma í ljós hvernig ferðaþjónustu verði háttað almennt í löndunum í kringum okkur.
Varðandi endurskoðun á gildandi fyrirkomulagi á landamærum verður hún formlega að fara fram fyrir 15. september þegar núgildandi auglýsing rennur út. Þá segir Páll að heilbrigðisráðherra hafi skipað vinnuhóp til að fara yfir gagnkvæma viðurkenningu á vottorðum.