Ragna býður sig fram til forseta UJ

Ragna Sigurðardóttir.
Ragna Sigurðardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Ragna Sigurðardóttir mun bjóða sig fram til forseta Ungra jafnaðarmanna á landsþingi hreyfingarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rögnu.

„Ég vil leiða Unga jafnaðarmenn (UJ) næstu tvö árin – opna starfið, breikka fylkinguna og byggja upp kröftuga hreyfingu ungs fólks fyrir mikilvægar kosningar sem eru fram undan, til Alþingis haustið 2021 og sveitarstjórna vorið 2022. Þá skipta samstaða og skipulag höfuðmáli,“ segir í tilkynningunni. 

Ragna hefur tekið virkan þátt í starfi Samfylkingarinnar undanfarin ár, meðal annars sem kosningastýra Samfylkingarinnar í Reykjavík í kosningum til borgarstjórnar 2018, síðan sem varaborgarfulltrúi samhliða læknanámi en hún starfar nú sem borgarfulltrúi í Reykjavík. Hún situr einnig í stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík.

Þá gegndi Ragna einnig formennsku í Röskvu, samtökum félagshyggjufólks innan Háskóla Íslands, 2014-2015, sat í Stúdentaráði 2015-2017 og var kjörin í háskólaráð HÍ árið 2016. Hún var formaður Stúdentaráðs fyrir hönd Röskvu 2017-2018 eftir að Röskva náði meirihluta í ráðinu í fyrsta sinn í 8 ár. Þar beitti hún sér meðal annars fyrir húsnæðismálum ungs fólks, lánasjóðsmálum, geðheilbrigðismálum, jafnréttismálum og styrkingu háskólakerfisins. 

„Ég vil nýta stöðu mína sem fulltrúi Samfylkingarinnar á sveitarstjórnarstiginu til að vekja athygli á málefnum ungs fólks. Ég vil byggja upp ungliðastarfið enn frekar, bjóða enn fleiri velkomin og búa til vettvang fyrir pólitíska umræðu á meðal ungs fólks. Það er mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr að ungt fólk taki pláss í umræðunni og hafi eitthvað um framtíð sína að segja.“

Kosið verður um forseta UJ og aðrar stöður í framkvæmdastjórn og miðstjórn samtakanna laugardaginn 5. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert