Alls hafa 264 lent í hópuppsögnum í ágúst að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar. Um er að ræða þrjú fyrirtæki, öll í ferðaþjónustunni. Eitt bættist við um helgina þar sem rúmlega sextíu manns var sagt upp.
Áður hafði verið greint frá hópuppsögn hjá Isavia þar sem 133 manns var sagt upp.
Spurð hvort hún hafi búist við þessum fjölda segist Unnur aldrei vita við hverju hún eigi að búast á þessum tímum.
„Það má segja að þetta komi ekki á óvart að menn eru að grípa til ráðstafana í byrjun september. Burtséð frá Covid er alltaf samdráttur eða fækkun yfir veturinn,“ segir Unnur, sem býst þess vegna við fleiri tilkynningum um hópuppsagnir síðar í dag.