Oddur Þórðarson
Líkt og fram hefur komið á mbl.is sagði Fríhöfnin ehf., dótturfélag Isavia, upp 62 starfsmönnum í dag sem er um 60% starfsmanna í fyrirtækinu. Framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar segir að hún vilji ekki endilega rekja samdrátt í rekstri fyrirtækisins til aðgerða stjórnvalda við landamærin heldur fyrst og fremst til fækkunar farþega almennt.
„Þetta er aðallega vegna fækkunar ferðamanna sem við grípum til þessara uppsagna núna. Óháð því hvaða aðgerðir hafa verið við landamærin hefur samdrátturinn verið gríðarlegur.“ Þetta segir Þorgerður Þráinsdóttir í samtali við mbl.is. Hún segir samdrátt í rekstri Fríhafnarinnar hafa numið frá 75% upp í allt að 95% miðað við eðlilegt árferði. Starfsemin hafi svo gott sem lagst af fyrstu vikurnar og mánuðina eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á heimsbyggðinni.
„Ég ætla ekkert að gera athugasemdir við þær aðgerðir sem stjórnvöld grípa til vegna þessa faraldurs. Ég veit bara að fækkun ferðamanna almennt er það sem hefur skaðað rekstur Fríhafnarinnar.“
Þorgerður segir enn fremur að Fríhöfnin sé reiðubúin til endurráðninga ef flugrekstur glæðist. „Ef við sjáum fram á mikla fjölgun ferðamanna á næstunni þá að sjálfsögðu verðum við að ráða fólk á ný. Óvissan er hins vegar mikil þannig að við verðum að grípa til þessara ráðstafana núna.“
Aðspurð segir Þorgerður að ákvörðunin um hópuppsögnina í dag hafi komið frá Fríhöfninni sjálfri en ekki móðurfélaginu Isavia. „Fríhöfnin er með eigin stjórn og framkvæmdastjórn og það erum við sem ákveðum að gera þetta núna, ákvörðunin kemur hvergi annars staðar frá.“