Slagsmálin mögulega uppgjör

„Hvort það sé eitthvert uppgjör eða hvað það er, ég veit það ekki,“ segir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn um slagsmál tveggja hópa í miðbænum á laugardagskvöld. Rannsóknin heldur áfram en hann segir þetta mögulega hluta af þróun sem lögreglan hafi varað við um skeið. 

„Þetta er það sem við höfum óttast hvað mest, að þetta sé að færast í aukana. Þegar ákveðnir hópar fara að myndast og gera sig heimakomna hérna. Ef við bara horfum til nágrannaríkjanna hérna, Norðurlandanna, þá hefur ýmislegt gerst þar, sem við erum hræddir um að sé að færast hingað til okkar.“

Í myndskeiðinu er rætt við Margeir í síma um slagsmálin. Fjórir voru færir til yfirheyrslu strax um kvöldið og heldur rannsóknin áfram. Mikið er til af myndefni og nýtir lögreglan sér bæði myndskeið sem hafa farið í dreifingu á samfélagsmiðlum og eigið myndefni við rannsóknina. Maðurinn sem slasaðist mest í átökunum mun hafa misst meðvitund um stund en Margeir segir að ekki sé útlit fyrir að hann muni hljóta varanlegan skaða af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert