Sveitarfélögin þurfa milljarða til viðbótar í tekjur svo þau geti mætt kröfum sem til þeirra eru gerðar, segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í Morgunblaðinu í dag.
Frávik í rekstri sveitarfélaganna frá áætlunum líðandi árs til stöðunnar nú í ágústlok er alls 33 milljarðar kr. Þar eru áhrif kórónuveirunnar stærsti áhrifaþátturinn; minni útsvarstekjur, meiri útgjöld vegna velferðarmála og fjárfestingar sem jafnvel var bætt við til að skapa vinnu.
Fulltrúar sveitarfélaga funduðu fyrir helgi með forsætisráðherra og sveitarstjórnarráðherra og fóru yfir stöðu mála. Stefnt er að öðrum fundi í næstu viku og er þess vænst að svör um aðgerðir ríkisins liggi þá fyrir. Framlög ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verða á næsta ári skert um fjóra milljarða króna. Aldís segir að ríkið þurfi að gefa afdráttarlausa yfirlýsingu um samstöðu með sveitarfélögum.
Í Morgunblaðið í dag skrifa grein framkvæmdastjórar hjúkrunarheimila sem sveitarfélögin reka og segja óvissu um reksturinn. Haldi svo fram sem horfi verði heilbrigðisstofnunum ríkisins falinn rekstur þeirra eins og gert var á Akureyri, enda hafi fyrirheit stjórnvalda um sterkari grundvöll rekstrar verið innistæðulítil. Um þetta segir Aldís að starfshópur sveitarfélaga, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og heilbrigðisráðuneytis sé að greina stöðuna og úrbóta sé að vænta.