Til skoðunar er að slaka á sóttvarnareglum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar innanlands. Leggja þarf fram nýjar tillögur að aðgerðum til heilbrigðisráðherra eftir viku.
Fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag, að hann vænti þess að hægt verði að slaka á takmörkunum vegna veirunnar innanlands bráðlega. Hann segir mikilvægt að áfram verði skimað á landamærum með einhverju móti.
Þórólfur segir að vika sé í að ný auglýsing heilbrigðisráðherra vegna sóttvarnaaðgerða verði að vera gefin út. Því sé nú unnið að gerð nýrra tillaga. Varðandi aðgerðir á landamærum sagðist Þórólfur ekki telja það rétt að fara of geyst í að aflétta þeim takmörkunum sem í gildi eru á meðan aðrar þjóðir séu að herða reglur. Hann segir að það kunni vel að vera að samfélagið sé tilbúið að fara í svipað ástand og var í byrjun sumars, en mikilvægt er að ekki sé farið of hratt í afléttingu aðgerða.
Í framhaldi af tilslökunum innanlands segir Þórólfur að hægt sé að skoða tilslakanir á aðgerðum við landamærin. Þar sé allt til skoðunar, meðal annars að annað fyrirkomulag verði fyrir erlenda ferðamenn en þá sem hafa hér ríkisfang.