Ríkið fær 300-400 milljónir króna árlega vegna vanrækslugjalda frá bifreiðaeigendum sem ekki koma með bíl sinn til skoðunar innan tveggja mánaða frá tilætluðum skoðunartíma. Nemur þetta nærri einni milljón króna á dag að meðaltali.
Nú stendur til að gera reglugerðarbreytingu þar sem almenna vanrækslugjaldið er hækkað úr 15 þúsund krónum í 20 þúsund krónur en eigendum hóp- og vörubifreiða verði gert að greiða 40 þúsund krónur í stað 15 þúsund króna ef þeir koma ekki með ökutækin í skoðun innan tilætlaðs tíma.
Á grafi í Morgunblaðinu í dag má sjá að fjöldi vanrækslugjalda hefur haldist svipaður undanfarin 10 ár og eru um 15% bifreiðaeigenda sem reiða fram gjaldið, samkvæmt upplýsingum frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Fram kemur í umsögn frá Sýslumanninum á Vestfjörðum, sem sér um innheimtu gjaldsins, að árlega sé fjöldi álagninga vanrækslugjalds á bilinu 35.000 til 40.000.
Í breytingum á reglugerðinni er m.a. lagt til að létt bifhjól í flokki I verði gerð skoðunarskyld. Eru það ökutæki sem geta ekki farið hraðar en 25 km/klst. Lágmarksaldur til aksturs slíkra ökutækja miðast við 13 ár og má því hér eftir gera ráð fyrir því að á sumum heimilum muni skoðunarskyldum ökutækjum fjölga.