Veiddi koi-fisk í Elliðaám

Koi-fiskurinn eftir að Þorkell veiddi hann upp úr ánni.
Koi-fiskurinn eftir að Þorkell veiddi hann upp úr ánni. Ljósmynd/Aðsend

Japanskur koi-fiskur var veiddur upp úr Elliðaám fyrir helgi.

Það var Þorkell Heiðarsson, líffræðingur og deildarstjóri í Húsdýragarðinum, sem veiddi hann með háfi eftir að sonur hans hafði komið auga á torkennilegan fisk ofan við Árbæjarstíflu þegar hann var þar á skokki.

Þorkell hafði samband við Jóhannes Sturlaugsson, vin sinn og fyrrverandi samstarfsfélaga sem rekur Laxfiska ehf. sem halda utan um rannsóknir í ánni. Úr varð að Þorkell skellti sér í vöðlur, greip með sér háf og hélt til veiða.

Auðveld veiði

„Þetta var frekar lítið mál,“ segir hann og bætir við að auðvelt hafi verið að komast að fisknum sem var í lítilli sprænu á milli kvísla í ánni. „Hann var ekki mjög hress. Hann var ekki að sprikla mikið eða fara hratt á milli. Þetta var ekki erfiðasta fiskveiðin,“ segir Þorkell, spurður út í þessa óvenjulegu veiðiferð. Fiskurinn, sem er skrautafbrigði vatnakarpa, var um 40 sentimetra langur og vó ríflega 1.000 grömm.

Fiskurinn áður en Þorkell veiddi hann.
Fiskurinn áður en Þorkell veiddi hann. Ljósmynd/Aðsend

Hann nefnir að annar koi-fiskur hafi verið veiddur talsvert neðar í ánni í vor og telur að þessum fisk hafi verið sleppt ofarlega í ánni og borist niður eftir henni. „Það er ekkert voðlega sniðugt að sleppa þessum fiskum í íslenskar laxveiðiár. Það er hægt að gera margt gáfulegra,“ segir hann og bætir við að tegundin eigi ágætismöguleika á að lifa af við íslenskar aðstæður. Hún geti fjölgað sér og borið með sér sníkjudýr eða sjúkdóma. „Við verðum að passa okkur að fara vel með árnar okkar.“

Fiskurinn er núna í Húsdýragarðinum en Þorkell efast um að hann verði þar til frambúðar. Líklega verður honum komið í fóstur þar sem hann getur verið í tjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert