Andlát: Guðrún Margot Ólafsdóttir dósent

Guðrún Margot Ólafsdóttir
Guðrún Margot Ólafsdóttir

Látin er í Reykjavík Guðrún Margot Ólafsdóttir, fyrrverandi dósent í landafræði, níræð að aldri.

Guðrún fæddist í Dengzhou í Henan-sýslu í Kína hinn 12. febrúar 1930, dóttir Ólafs Ólafssonar og Herborgar Eldevik Ólafsson sem þar störfuðu við kristniboð. Guðrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og stundaði nám í landafræði, sögu og ensku við Háskólann í Ósló.

Guðrún var kennari við Kennaraskóla Íslands þar til hún hóf störf við Háskóla Íslands árið 1974. Hún átti þar mikinn þátt í að byggja upp nám í landafræði, fyrst sem lektor og síðar sem dósent.

Eftir Guðrúnu liggja ýmis rit og greinar. Hún var gríðarlega víðförul, ferðaðist um allar álfur og stundaði rannsóknir við erlenda háskóla. Hún tók þátt í starfi Kvennaframboðsins í Reykjavík og bar kvenfrelsisbaráttu mjög fyrir brjósti.

Börn Guðrúnar eru Egill Helgason sjónvarpsmaður og Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

Guðrún dvaldi síðustu árin á hjúkrunarheimilinu Grund og fékk hægt andlát sunnudaginn 30. ágúst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert