„Nú liggur fyrir að hagstæðasta leið Sundabrautar hefur verið gerð ómöguleg vegna skipulags borgarinnar við Vogabyggð,“ sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, á fundi borgarstjórnar í dag þar sem óundirbúnar fyrirspurnir voru í fyrsta sinn teknar fyrir.
Gagnrýndi Eyþór að borgin hafi heimilað mannvirki við vegstæði Sundabrautar og hafið framkvæmdir sem þrengi að vegstæði brautarinnar.
„Þetta er þvert á yfirlýsingar borgarstjóra frá árinu 2006 en þar sagði hann orðrétt: „Lagning Sundabrautar er algjört forgangsverkefni í okkar augum.“ Jafnframt lagði Samfylkingin áherslu á að brautin lægi ekki nálægt íbúðabyggð,“ sagði Eyþór og hélt áfram:
Enn fremur hafi Reykjavíkurborg lofað í samkomulagi sem nefnt hefur verið „Blábókin“, undirrituðu af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að borgarstjórn muni beita sér fyrir því að lagning Sundabrautar verði um Elliðaárvog, Grafarvog, Geldinganes, Álfsnes og Kollafjörð.
„Síðan eru liðin 23 ár, að langmestu leyti undir stjórn Samfylkingarinnar, en ekkert hefur gerst nema það að borgin hefur þrengt að Sundabraut með auknum tilkostnaði og fækkun hagstæðra valkosta fyrir legu Sundabrautar.
Nú er liðið ár síðan borgarstjóri skrifaði undir samgöngusáttmála og ekkert hefur verið gert til að efna þessar skyldur borgarinnar,“ sagði Eyþór.
Svaraði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri því að gott væri að minna á að samgöngusáttmálinn fjallaði um framkvæmdir upp á 120 milljarða í samvinnu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins.
„Sundabraut, sem hér er nefnd, er ekki fjármögnuð innan sáttmálans en það er rétt að sáttmálinn kveður á um að tryggja tengingar við hana. Það hefur frá upphafi verið gert ráð fyrir því að hún verði einhvers konar einkaframkvæmd og borguð að stórum hluta með veggjöldum,“ sagði hann og hélt áfram:
„Það sem borgarfulltrúinn kallar bestu leiðina var mjög umdeilt beggja vegna Elliðaárvogs, þ.e.a.s. í Grafarvogi annars vegar og hins vegar í Laugardal og eftir ítarlegt samráðsferli árið 2005 til 2008 var það niðurstaðan að stefna Reyjavíkurborgar væri að Sundabraut væri best í göngum,“ sagði hann. Niðurstaðan hafi verið þverpólitísk og byggði á samráði, bæði við Vegagerðina og íbúa.
Því næst sneri Dagur sér að Sundabrautinni og sagði þau málefni vera í traustum farvegi, þar sem verið væri að skoða Sundabraut í göngum annars vegar og á lágbrú hins vegar.
„Sundabraut fór á nokkra bið eftir hrun og henni voru ætlaðir peningar af sölutekjum Símans. Þeir fjármunir voru geymdir inni í Seðlabankanum og töpuðust eins og annað sem þar var í hruninu,“ sagði hann og hélt áfram:
„Málið hefur aftur verið tekið upp á undanförnum árum og er í traustum og góðum farvegi í sameiginlegum hópi ríkisborgara Faxaflóahafna, sem er að skoða Sundabraut í göngum og samanburð við Sundabraut á lágbrú á svæðinu til móts við Holtaveg,“ sagði hann að lokum.