Mikið atvinnuleysi og óttast að staðan versni

Frá Keflavíkurhöfn. Þegar best lætur sogar flugið til sín vinnuaflið.
Frá Keflavíkurhöfn. Þegar best lætur sogar flugið til sín vinnuaflið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 1.500 félagsmenn í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur eru nú án atvinnu. Alls eru um 4.200 manns í félaginu og því eru um 35% félagsmanna atvinnulausir.

 „Ástandið er mjög alvarlegt og ég óttast að staðan muni versna verulega á næstunni. Margir atvinnurekendur hafa sagt upp fólki að undanförnu, meðal annars fyrir þessi mánaðamót, ég óttast að tvenn næstu geti líka orðið mjög erfið að þesssu leyti,“ segir Guðbjörg Kristmunsdóttir, formaður VSFK, í samtali við Morgunblaðið.

Mjög hefur syrt í álinn í atvinnumálum á Suðurnesjum að undanförnu. Fall WOW snemma árs í fyrra varð til þess að margir misstu vinnuna og í upphafi þessa árs voru um 400 manns í VSFK án vinnu. Þegar áhrifa kórónuveirunnar fór að gæta varð staðan enn þyngri, svo sem fyrirtæki í flugi og ferðaþjónustu sem sögðu upp stórum hópum fólks.

„Einnig hafa vinnuveitendur í störfum afleiddum frá ferðaþjónustunni sagt upp fólki, svo hér eltir hvað annað,“ segir Guðbjörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert