Róbert hvattur til að hafna heiðursnafnbót í Tyrklandi

Róbert Ragnar Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu.
Róbert Ragnar Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu. Ljósmynd/Aðsend

Róbert Spanó forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, sem hyggst heimsækja Tyrkland í vikunni, hefur sætt gagnrýni eftir að greint var frá því að hann gæti hugsanlega verið gerður að heiðursdoktor við háskólann í Istanbúl. 

Róbert hefur starfað sem dómari við Mannréttindadómstólinn frá árinu 2013 og var kosinn forseti hans í maí síðastliðnum. Áður var Róbert forseti annarrar deildar dómstólsins sem dæmdi í málum frá Tyrklandi. 

Gagnrýnendur segja að það skjóti skökku við gagnvart gildum og niðurstöðum dómstólsins að forseti hans taki við heiðursnafnbót frá ríkisreknum háskóla í Tyrklandi. Fram kemur í frétt á vef samtakanna Stockholm Center for Freedom að yfirvöld hafi rekið 192 fræðimenn frá háskólanum í kjölfar misheppnaðs valdarán í landinu árið 2016. 

Mehmet Altan, hagfræðiprófessor sem var fangelsaður í kjölfar valdaránstilraunarinnar, greindi frá því í opnu bréfi hvaða þýðingu það kynni að hafa ef Róbert tæki við nafnbótinni. Altan, sem starfaði við háskólann í Istanbúl í 30 ár, segir að dómsmál sem hann og fleiri hafa höfðað gegn háskólanum færu líklega fyrir Mannréttindadómstólinn og Róbert yrði þá með heiðursnafnbót frá varnaraðilanum. 

RÚV greindi fyrst frá þessu í morgun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert