Sveinn nýr forseti viðskiptadeildar HR

Sveinn Viðar Guðmundsson.
Sveinn Viðar Guðmundsson. Ljósmynd/Aðsend

Dr. Sveinn Viðar Guðmundsson hefur tekið við stöðu prófessors og deildarforseta viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík.

Sveinn hefur frá árinu 2000 starfað við hinn virta Toulouse Business School (TBS) í Frakklandi, fyrst sem dósent og síðar sem prófessor í stefnumótun og forstöðumaður rannsóknamiðstöðvar fyrir hagrannsóknir og stjórnun í flug- og geimgeiranum. Þar stýrði hann einnig námi í stefnumótun, samstarfi fyrirtækja og stefnumótandi framsýni innan MBA-námsbrautarinnar, að því er segir í tilkynningu.

Hann hefur einnig unnið sem sérfræðingur, í mati rannsókna hjá rannsóknarrammaáætlunum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (Joint Undertaking, FP5 og FP7) og í stefnumótandi framsýni hjá SSEE Oxford University, samtökum fyrirtækja í flugvéla- og hergagnaframleiðslu (ASD), og Umhverfisstofnun Evrópu.

Áður en hann hóf störf hjá TBS var hann við háskólann í Maastricht þar sem hann sat í deildarráði hagfræði- og viðskiptadeildar og kenndi við stefnumótunardeildina undir forystu Prófessors John Hagedoorn, þar áður var hann dósent (Principal Lecurer) við London Guildhall University, þar sem hann þróaði og stýrði meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og samgöngum.

Sveinn lauk doktorsnámi í stjórnunarfræði með áherslu á flugmál frá Cranfield University árið 1996. Hann lauk MBA- og MSc-námi í kerfisfræði frá Florida Institute of Technology árið 1987 og BSc-námi í stjórnunarfræði á sviði flugmála árið 1985 frá sama skóla.

Hefur birt fjölda vísindagreina

Sveinn hefur birt fjölda vísindagreina og ritstýrt fjölda sérrita á sínu sviði og hlotið viðurkenningar fyrir kennslu, rannsóknir og störf í þágu alþjóðlegra rannsókna. Hann ritstýrir Journal of Air Transport Management (Elsevier) og er í ritstjórnum fjögurra annarra vísindatímarita.

Hann hlaut rannsóknarstyrk og var gestarannsakandi við Smith School of Enterprise and the Environment (SSEE), Oxford-háskóla skólaárið 2008 til 2009, undir forystu Professors Sir David King, og hlaut IRCA-styrk við The University of Sydney Business School skólaárið 2013 til 2014. Sveinn hefur kennt námskeið sem gestakennari við Oxford-háskóla, EOI-Madríd og Sevilla, hjá IAS Toulouse (námskeið fyrir flug- og geimfyrirtæki) og Southampton Business School, samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningunni. 

Sveinn var prófdómari við Cranfield-háskóla, átti sæti í ráðgjafarnefnd Rannsóknamiðstöðvar ICCSAI við háskólann í Bergamo og í alþjóðlegri nefnd um mat á rannsóknum í viðskiptum og hagfræði við háskólann í Antwerpen.

Rannsóknaráhugi hans er fyrst og fremst tengdur stefnumótun lággjaldafyrirtækja, hlutdrægni í ákvörðunarferlum stjórnenda, samstarfi, samruna og yfirtöku fyrirtækja, gerð spálíkana fyrir afkomu fyrirtækja, og stefnumótandi framsýni fyrirtækja og stofnana í tengslum við sjálfbærni og vöruþróun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert