Gular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir stóran hluta landsins frá því síðdegis á fimmtudag fram á föstudagskvöld. Spáð er norðanhríð á Ströndum, Norðurlandi vestra og eystra, Austurlandi að Glettingi og á miðhálendinu.
Á Ströndum og Norðurlandi vestra tekur viðvörunin gildi klukkan 17 á fimmtudag og gildir til klukkan 18 á föstudag. „Útlit er fyrir norðahvassviðri eða -storm, 15-20 m/s og talsverða úrkomu. Hiti verður nærri frostmarki og því líklegt að úrkoma falli sem slydda ofan 200 metra yfir sjávarmáls og sem snjókoma ofan ofan 400 metra. Veðrið gæti skapað vandræði fyrir búfénað, einkum kindur til fjalla. Líklegt er að færð spillist á fjallvegum og ferðalangar á svæðinu ættu að huga vel að veðurspám.“