Allir þeir sem slösuðust í rútuslysi við Skaftafell á föstudag hafa verið útskrifaðir af spítala eftir minniháttar meiðsl og beinbrot. Drengirnir, sex talsins úr 4. flokki karla í knattspyrnufélaginu Sindra, voru á heimleið ásamt þjálfara eftir knattspyrnuleik þegar slysið varð.
„Þeir náttúrlega meiddust og þetta var mikið högg sem þeir fengu. Sumir fengu skurði í andlit og við auga. En allir eru á batavegi og þetta horfir allt til betri vegar. Svo er bara að reyna að vinna úr áfallinu, það er kannski stærsta málið núna,“ segir Hjalti Þór Vignisson, formaður knattspyrnudeildar Sindra.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendi piltunum bréf með batakveðjum. „Við erum búin að fá góðar kveðjur víðsvegar að, bæði frá KSÍ, öðrum félögum og meira að segja forsetanum. Við erum þakklát fyrir allan þennan stuðning sem strákarnir hafa fengið,“ segir Hjalti.
Margir piltanna spila með þriðja flokki auk fjórða flokks og hefur því einum leik, sem átti að vera um helgina í þriðja flokki karla, verið frestað vegna slyssins.
„Við verðum að sjá hvort við náum hópnum saman fyrir þá leiki sem eftir eru. Að öðru leyti ættu leikir ekki að riðlast hjá Sindra,“ segir Hjalti.