Yfir 90% smitaðra mynda mótefni

4% mynduðu ekki mótefni.
4% mynduðu ekki mótefni. AFP

Rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar bendir til þess að 0,9% Íslendinga hafi smitast af kórónuveirunni og 91,1% smitaðra hafi myndað mótefni. Ekkert bendir til þess að það dragi úr mótefni í blóði fjórum mánuðum eftir sýkingu. Þá hafi 44% þeirra sem smituðust ekki fengið greiningu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknar vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar og samstarfsfólks þeirra sem birtist í vísindaritinu The New England Journal of Medicine í dag.

Vísindamennirnir álykta út frá gögnum að að dánartíðni sé 0,3% á Íslandi en alls var skimað fyrir mótefnum í blóði 30.576 Íslendinga. Það er um 8% af íbúafjölda landsins. Veiran kom ekki til Íslands fyrr en í febrúar að því er segir í spjalli Kára Stefánssonar við Daníel Fannar Guðbjartsson, vísindamann hjá Íslenskri erfðagreiningu sem er einn höfunda rannsóknarinnar.

Íslensk erfðagreining rannsakar nú frumubundið ónæmi gegn kórónuveirunni hjá þeim …
Íslensk erfðagreining rannsakar nú frumubundið ónæmi gegn kórónuveirunni hjá þeim sem ekki mynduðu mótefni.

Að sögn Daníels er hlutfall þeirra sem hafa smitast af COVID-19 á Íslandi afar lágt sem þýðir að þjóðin er enn berskjölduð fyrir annarri smitbylgju. 

Sjá nánar hér

Prófuð voru 2.102 sýni úr 1.237 Íslendingum sem höfðu sýkst af SARS-CoV-2 (kórónuveirunni), tekin allt að fjórum mánuðum eftir greiningu. Þá voru mæld mótefni hjá 4.222 einstaklingum sem höfðu farið í sóttkví og öðrum sem ekki höfðu komist í tæri við veiruna svo vitað væri. 2,3 prósent þeirra sem höfðu farið í sóttkví voru með mótefni og 0,3 prósent fólks sem ekki var vitað að hefði smitast eða umgengist smitaða einstaklinga.

Tengsl á milli alvarlegra veikinda og magns mótefna

Sýni voru tekin úr um 8% íslensku þjóðarinnar.
Sýni voru tekin úr um 8% íslensku þjóðarinnar. AFP

Mun fleiri greindust með mótefni sem voru í sóttkví en þeir sem voru það ekki. Þá sýnir rannsóknin enn fremur tengsl milli alvarleika veikinda og magns mótefna. Þeir sem veiktust lítið eða sýndu engin einkenni höfðu því meiri tilhneigingu til að mynda lítið af mótefnum eða engin.

Af þeim 8,9% sem greinst höfðu með nef og hálssýni og mynduðu ekki fullt mótefnasvar, myndaði tæpur helmingur (4% af heildinni) engin mælanleg mótefni. Upphafleg greining þessara einstaklinga var annað hvort fölsk eða líkami þeirra losnaði við veirusýkinguna með öðrum ráðum en myndun mótefna.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir gott að geta lagt að baki áhyggjur af því að mótefni kunni að fjara út á einhverjum vikum eftir sýkingu. Núna sé fyrirtækið að rannsaka frumubundið ónæmi gegn veirunni hjá þeim sem ekki mynduðu mótefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert