Flugfreyjur í 75% starf næstu 8 mánuði

Frá miðjum síðasta mánuði hafa all­ir sem til lands­ins koma …
Frá miðjum síðasta mánuði hafa all­ir sem til lands­ins koma þurft að fara í tvö­falda skimun fyr­ir kór­ónu­veirunni með fimm daga sótt­kví þar á milli. mbl.is/Árni Sæberg

Flugfreyjur og flugþjónar Icelandair munu fara í 75% starfshlutfall næstu átta mánuði. Þetta segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi félagsins, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is. Ákvörðunin var tekin á fundi Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands í síðustu viku. 

„Í síðustu viku [voru] haldnir fundir með flugfreyjum og flugþjónum til að ræða mögulegar leiðir til að bregðast við þeim samdrætti sem nú blasir við vegna hertra ferðatakmarkana á landamærum hér á landi,“ skrifar Ásdís. 

„Einróma samstaða“

Frá miðjum síðasta mánuði hafa all­ir sem til lands­ins koma þurft að fara í tvö­falda skimun fyr­ir kór­ónu­veirunni með fimm daga sótt­kví þar á milli. Farþegum sem koma hingað til lands hefur fækkað í kjölfar þess að reglurnar tóku gildi. 

Í kjölfar fundarins „náðist einróma samstaða í hópnum og í góðu samstarfi við Flugfreyjufélag Íslands um að bregðast í sameiningu við þessari stöðu og koma í veg fyrir hópuppsagnir með því að flugfreyjur og flugþjónar fari í 75% af fyrra starfshlutfalli næstu 8 mánuði“, segir í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert