Gerir ekki ráð fyrir að rukka ríkið

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Eggert

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist ekki eiga von á því að hann muni rukka íslenska ríkið fyrir útlagðan kostnað fyrirtækisins vegna skimunar á landamærum. Þá sé fráleitt að hann muni setja á fót farsóttarstofnun fyrir ríkið, en Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, hélt því fram í þættinum Kastljósi í kvöld sem Ríkissjónvarpið sýnir.

Greint er frá þessu á vef RÚV.

Í nýrri bók Björns Inga um kórónuveirufaraldurinn, Vörn gegn veiru, greinir hann frá þeirri hugmynd Kára Stefánssonar að setja á laggirnar Farsóttastofnun Íslands, en hún yrði fjármögnuð með því fé sem Íslensk erfðagreining myndi rukka ríkið um fyrir skimun á landamærum Íslands, sem er á bilinu einn til tveir milljarðar króna.

Mikilvægt að stofnunin verði sett á fót

Að því loknu myndi Kári gefa íslensku þjóðinni stofnunina. Í samtali við RÚV segir Kári kannast við hugmyndina og að hann hafi sjálfsagt nefnt hana við Björn Inga.

„Af stráksskap mínum þá fannst mér það svolítið sniðugt að ýta við ríkinu til að stofna farsóttarstofnun með því að taka peninga sem yrðu rukkaðir fyrir skimun á landamærum og setja í þannig stofnun. En þetta er bara svona ein af þessum hugmyndum sem menn ræða um á kaffistofum,“ segir Kári við RÚV.

Þá segir Kári einnig að mikilvægt sé að slík stofnun verði sett á fót og að hann muni áfram hvetja stjórnvöld til þess að gera. Telur Kári að kostnaðurinn við það myndi skila sér margfaldur til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert